VITRINGARNIR 3

Eyþór Ingi Gunnlaugsson

Eyþór er fæddur 29. maí 1989 og er Dalvíkingur eins og þeir gerast skárstir. Það er ekki hlaupið að því að vera Eyþór. Hann er ennþá að læra á sjálfan sig. Hver dagur er ævintýri hjá okkar manni því hann er alltaf að koma sjálfum sér á óvart. Ekkert endilega alltaf á jákvæðan hátt, en oftast jákvætt jú. Hans mottó í lífinu er að þrauka daginn og vita hvar hann er staddur. Eyþór er ekki maður einsamall. Nei alls ekki. Hann er búin þeim ótrúlega hæfileika að geta leikið eftir fasi og röddum tuga manna. Það hefur nýst honum einstaklega vel í partýum og ekki síst í hjónabandinu. Við höfum það fyrir áreiðanlegum heimildum að konan hans vakni aldrei með sama manninum tvo daga í röð.

Ferill

Eyþór fór fljótt að grípa áberandi karaktera í söng og leik þegar hann var smástrákur. Hann setti upp heilu og hálfu leikritin heima í stofu fyrir gesti og gangandi. Hann sigraði sjónvarpsþættina Bandið hans Bubba árið 2008 en þar áður hafði hann unnið Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd VMA. Eyþór fór að láta taka til sín á leiksviði og tók meðal annars þátt í Rocky horror hjá Leikfélagi Akureyrar 2010, Hárið 2011, Vesalingunum í Þjóðleikhúsinu árið 2012 og í Ávaxtakörfunni 2022. Eyþór hefur einnig látið taka til sín á hvíta tjaldinu en hann lék Herra Rokk í kvikmyndinni Abba babb árið 2022. Eyþór er söngvari hljómsveitarinnar Rock Paper Sisters en hann hefur ennig sungið á fjölda tónleika víðsvegar um land eins og og hátíðartónleikum Eyþórs Inga, Jólagestum Björgvins, Heiðurstónleikum Gunnars Þórðarssonar, Led Zeppelin, Freddie Mercury og með Sinfoníuhljómsveit Íslands.

Fylgstu með Eyþóri á instagram: eythoringimusic