Friðrik Ómar Hjörleifsson
Friðrik Ómar Hjörleifsson er fæddur 4. október 1981 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hann er Vog með rísandi Ljón. Það er hræðileg blanda. Vogin veit ekkert í hvorn fótin hún á að stíga en þegar hún kemst í samband við ljónið í sér þá er best að vera ekki fyrir. Hann sér engin vandamál, bara lausnir. Friðrik er landsbyggðartútta og unir sér vel í eldhúsinu. Hann á erfitt með að klára hluti og á það til á einum degi að fylla heila uppþvottavél af borðbúnaði eftir sjálfan sig. Hans mottó í lífinu er að vera sem minnst í kringum leiðinlegt fólk. Hann er ógiftur og barnlaus en skilur eftir sig hjásvæfur í öllum heimsálfum.
Ferill
Friðrik byrjaði barnungur að spila á trommur. Það var síðan fyrir tilstillan umsjónakennara Friðriks að hann söng Aravísur á skólaskemmtun á Dalvík árið 1989 þá aðeins 8 ára gamall. Þar vakti hann fyrst athygli fyrir sönghæfileikana. Árið 1997 gaf Friðrik út sína fyrstu plötu en síðan þá hefur hann gert átta sólóplötur, þrjár dúettaplötur með Guðrúnu Gunnarsdóttur, tvær með Jógvan Hansen og tekið þátt í mörgum stærstu tónlistarverkefnum á Íslandi sl.15 ár, td. með Sinfoníuhljómsveit Íslands í War of the worlds, Frostrósum og Heima um jólin. Friðrik hefur fjórum sinnum tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpssins og verið í topp sætunum í hvert skipti. Árið 2008 söng Friðrik framlag Íslands í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, This is my life, ásamt Regínu Ósk. Friðrik hefur framleitt mikið magn af tónleikum í nafni Rigg viðburða frá árinu 2008 til dagsins í dag eins og Öll bestu lög Vilhjálms Vilhjálmssonar, Heiðurstónleikar Freddie Mercury, Bat out of hell, Fiskidagstónleikana á Dalvík, Friðrik Dór í Eldborg og fimmtugs afmæli Páls Óskars. Friðrik hefur tvisvar verið tilnefndur sem söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og núna síðast árið 2023 fyrir söng á sinni nýjustu plötu, Í fjarlægð.
Fylgstu með Friðriki á Instagram: fromarinn