Vitringarnir eru þessa dagana á lokametrunum í undirbúningi fyrir frumsýninguna sem verður föstudagskvöldið 28. nóvember í Hörpu. Handritið þróaðist í óvænta átt á dögunum en tanngómur mun leika lykilhlutverk í einni senunni. Því leita Vitringarnir til landsmanna um lán á tanngómum. Viðbrögðin hafa verið framar vonum en margar ábendingar og ljósmyndir af gómum hafa borist á netfangið info@betlehem.is.

„Það eru áberandi flestir að bjóða fram tanngómana sína utan af landi. Hvort það segi eitthvað til um að tannhirða þar hafi verið eitthvað verri en í höfuðborginni er erfitt að segja til um. Við erum bara himinlifandi með alla þá góma sem fólk er til í að lána. Við þurfum þó bara eitt sett af efri og neðri góm en frábært að geta valið úr einhverju magni.“ segja Vitringarnir 3.

Gómarnir verða notaðir á tímabilinu 25. nóvember til 22. desember á 27 sýningum Vitringanna í Hörpu og Hofi.