Troðfullt á frumsýningu Vitringanna í Hörpu.
Allt ætlaði um koll að keyra á frumsýningu Vitringanna í Hörpu sem fór fram í gærkvöldi fyrir troðfullu húsi. Hlátrasköll, dúndrandi lófaklapp og tár á hvörmum voru meðal viðbragða gesta sem réðu sér vart úr kæti. Vitringarnir voru að vonum ánægðir eftir vel heppnað kvöld. „Eftir langan og strangan undirbúning er gaman að sjá þessi frábæru viðbrögð gesta. Við erum að blanda saman gríni, grúvi og gæsahúð og við höfum það á tilfinningunni að það hafi tekist enn betur en í fyrra. Við óðum soldið blint í sjóinn þá enda fyrsta árið okkar. Með góðri samvinnu við okkar nánasta samstarfsfólk teljum við okkur hafa náð að skerpa á hugmyndinni að Vitringunum þremur.”

Sigga Beinteins, Sveppi og Selma Björnsdóttir eru gestir Vitringanna í ár.
Mikil leynd hefur ríkt yfir þremur leynigestum Vitringanna í sýningunni en nú er það opinbert að Sigríður Beinteinsdóttir, Sveppi og Selma Björnsdóttir eru þau útvöldu. Allt ætlaði um koll að keyra þegar þau mættu hvert af öðru á sviðið með Vitringunum í þrælskemmtilegum og vel útfærðum atriðum. Selma Björnsdóttir er einnig leikstjóri sýningarinnar líkt og í fyrra.  Sú staðreynd að Selma og Sveppi eru systkinabörn vakti mikla athygli í sýningunni.

Við  vorum nokkuð vissir um hvað við vildum betrumbæta í ár .” segja Vitringarnir. Við segjumst jú bjóða upp á grín, grúv og gæsahúð en við gerum dass af öllu eins og þrautreyndar húsmæður við jólabaksturinn.”

Sérstök lokasýning 21. desember kl. 20:00.
Sýningarnar í Hörpu og Hofi verða samtals 27 en ákveðið hefur verið að bæta við sérstakri lokasýningu 21. desember kl. 20:00 í Hörpu. Sérstök forsala er núna í gangi á póstlista Vitringanna en almenn miðasala hefst mánudaginn 1. desember kl. 12:30 á www.vitringarnir 3.is

Ljósmyndari: Mummi Lú