Sala á jólatónleika ætti að byrja fyrr.
„Það er mjög óeðlilegt hvað sala á jólatónleika byrjar seint sé miðað við aðra viðburði en oftast fara þeir í sölu fjórum til sex mánuðum áður og jafnvel mun fyrr.“- segir Friðrik Ómar. Margir ráku upp stór augu þegar auglýsing um Vitringanna þrjá birtist í kosningasjóvarpi Rúv 1. júní sl. þar sem nægur tími væri til jóla. Aðspurður segir Friðrik þetta þreytta umræðu.
„Lang flestir í tónlistarbransanum eru verktakar og það er því mikil óvissa milli mánaða. Ég biði nú ekki í það ef allir væru á þeim stað að vita ekki hvort þeir hafi vinnu eftir þrjá mánuði eða hvursu mikil hún verður. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að hefja sölu með góðum fyrirvara til að hafa eitthvað atvinnuöryggi, vita svona sirka hvernig landið liggur. Það getur verið mjög streituvaldandi að sjá ekki fyrir hvursu mikil vinna og eða innkoma er framundan næstu misserin. Þannig að allt tal um að við séum of snemma er í raun vitleysa. Þvert á móti erum við í raun seinir.“ Aðspurður um hvort að Vitringarnir hefji miðasölu enn fyrr á næsta ári segir Friðrik engar ákvarðanir hafa verið teknar um það að svo stöddu. „Við hófum söluna fyrstir allra og seldum 10 þúsund miða á fyrstu vikunni. Það þýðir einfaldlega að markaðurinn var tilbúin. Næsta skref hjá okkur er að klára þessa törn. Við tökum stöðuna á nýju ári en við erum bara að einbeita okkur þessa dagana að klára handritið og sýninguna þannig að gestir okkar skemmti sér sem allra best. Það er það sem mestu máli skiptir.“